Persónuverndarstefna

Persónuverndarstefna Apple var uppfærð 31. desember 2019.

Persónuvernd þín skiptir Apple miklu máli og höfum við því útbúið persónuverndarstefnu sem nær yfir söfnun okkar, notkun, birtingu, flutning og geymslu á persónugreinanlegum upplýsingum þínum.

Auk persónuverndarstefnunnar bjóðum við upp á gagna- og persónuverndarupplýsingar sem eru innfelldar í vörur okkar og tengjast gagna- og persónuverndartákninu okkar fyrir ákveðna eiginleika sem biðja um leyfi til að nota persónuupplýsingar þínar.

Þú getur skoðað þessar upplýsingar áður en þú virkjar eiginleikana í stillingum sem tengjast þessum eiginleikum og/eða á netinu á apple.com/legal/privacy. Gefðu þér tíma til að kynna þér starfshætti okkar í tengslum við persónuvernd og hafðu samband ef einhverjar spurningar vakna.

Söfnun og notkun persónugreinanlegra upplýsinga

Persónugreinanlegar upplýsingar eru gögn sem nota má til að bera kennsl á eða hafa samband við tiltekinn einstakling.

Þú gætir verið beðin(n) um að gefa upp persónugreinanlegar upplýsingar hvenær sem þú átt í samskiptum við Apple eða dótturfélag Apple. Apple og dótturfélög þess geta deilt þessum persónuupplýsingum innbyrðis og notað í samræmi við þessa persónuverndarstefnu. Þau geta einnig sameinað þær öðrum upplýsingum til að útvega og bæta vörur okkar, þjónustu, efni og auglýsingar. Þú þarft ekki að veita þær persónuupplýsingar sem við höfum óskað eftir en ef þú kýst að gera það ekki getum við ekki útvegað þér vörur eða þjónustu né heldur brugðist við fyrirspurnum sem þú kannt að senda okkur.

Hér eru nokkur dæmi um þær tegundir persónugreinanlegra upplýsinga sem Apple kann að safna og hvernig við notum þær:

Þær persónugreinanlegu upplýsingar sem við söfnum

 • Þegar þú stofnar Apple ID-auðkenni, sækir um lán, kaupir vöru, sækir hugbúnaðaruppfærslu, skráir þig á námskeið í Apple-verslun, tengist þjónustu okkar, hefur samband við okkur, t.d. á samfélagsmiðlum, eða tekur þátt í könnun á netinu kunnum við að safna ýmsum upplýsingum, þ. á m. nafninu þínu, póstfangi, símanúmeri, netfangi, heppilegum samskiptamáta, auðkennum tækja, IP-tölu, staðsetningarupplýsingum, kreditkortaupplýsingum og prófílupplýsingum þar sem samskipti fara fram á samfélagsmiðlum.
 • Þegar þú notar Apple-vörur til að deila efninu þínu með fjölskyldu og vinum, sendir gjafabréf og vörur eða býður öðrum þátttöku í þjónustu eða á umræðusvæðum Apple kann Apple að safna þeim upplýsingum sem þú veitir um þetta fólk, t.d. nöfnum, póstföngum, netföngum og símanúmerum. Apple mun nota þessar upplýsingar til að uppfylla beiðnir þínar, útvega þér viðkomandi vöru eða þjónustu eða koma í veg fyrir svik.
 • Í tilteknum lögsagnarumdæmum kunnum við að fara fram á opinber skilríki við ákveðnar aðstæður á borð við uppsetningu reiknings fyrir þráðlaus samskipti og virkjun tækis, við fyrirgreiðslur lána, meðhöndlun bókana og eins og farið er fram á lögum samkvæmt.

Notkun okkar á persónugreinanlegum upplýsingum um þig

Mögulega vinnum við úr persónuupplýsingum þínum: í þeim tilgangi sem lýst er í þessari persónuverndarstefnu, með þínu samþykki, til að fara eftir ákvæðum þeirra laga sem Apple þarf að hlíta, til að efna samning sem þú ert aðili að, til að vernda mikilvæga hagsmuni þína eða þegar við höfum metið það nauðsynlegt vegna lögmætra hagsmuna sem Apple fylgir eftir eða út af þriðja aðila sem kann að reynast nauðsynlegt að deila upplýsingum með. Ef þú ert með spurningar um þennan lagagrundvöll getur þú haft samband við gagnaverndarfulltrúann.

 • Þær persónugreinanlegu upplýsingar sem við söfnum gera okkur kleift að senda þér nýjustu vörutilkynningar frá Apple, hugbúnaðaruppfærslur og upplýsingar um væntanlega viðburði. Viljirðu ekki vera á póstlista okkar geturðu afþakkað hvenær sem er með því að uppfæra kjörstillingarnar þínar.
 • Auk þessa notum við persónugreinanlegar upplýsingar til að geta búið til, þróað, unnið með og bætt vörur okkar, þjónustu, efni og auglýsingar og til að koma í veg fyrir tap og svik. Við kunnum einnig að nota persónuupplýsingar þínar af öryggisástæðum fyrir reikning og netkerfi, þ. á m. til að geta verndað þjónustu okkar í þágu allra notenda og til að forskima eða skanna innsent efni til að greina efni sem kann að vera ólöglegt, þ. á m. efni sem sýnir kynferðislega misneytingu á börnum. Við notum upplýsingar þínar til að koma í veg fyrir svik þegar viðskipti við okkur á netinu eiga sér stað. Við takmörkum notkun okkar á gögnum til að koma í veg fyrir svik við tilfelli þar sem slíkt reynist algjörlega nauðsynlegt og innan lögmætra hagsmuna samkvæmt okkar mati til að vernda viðskiptavini okkar og þjónustu. Fyrir ákveðin viðskipti á netinu kunnum við einnig að bera upplýsingarnar sem þú útvegaðir saman við upplýsingar sem eru aðgengilegar almenningi.
 • Við kunnum að nota persónugreinanlegar upplýsingar þínar, svo sem fæðingardag þinn og ár, til að staðfesta auðkenni þitt, aðstoða við auðkenningu notenda og ákvarða viðeigandi þjónustu fyrir þig. Til dæmis getum við notað fæðingardag til að ákvarða aldur Apple ID-reikningseigenda.
 • Annað veifið kunnum við að nota persónugreinanlegar upplýsingar um þig til að senda þér mikilvægar tilkynningar, t.d. upplýsingar um kaup og breytingar á skilmálum okkar og reglum. Þar sem þessar upplýsingar eru mikilvægar í samskiptum þínum við Apple geturðu ekki afþakkað þetta.
 • Við kunnum einnig að nota persónugreinanlegar upplýsingar innanhúss, t.d. við endurskoðun, gagnagreiningu og rannsóknir til að bæta vörur Apple, þjónustu og samskipti við viðskiptavini.
 • Ef þú tekur þátt í happdrætti, keppni eða áþekkri kynningu getum við notað upplýsingarnar sem þú gefur upp til að hafa umsjón með þeim kynningum.
 • Ef þú sækir um stöðu hjá Apple eða við fáum upplýsingar um þig í tengslum við hugsanlegt starf hjá Apple kunnum við að nota upplýsingarnar til að meta umsókn þína og hafa samband við þig. Ef þú ert umsækjandi færðu frekari upplýsingar um hvernig Apple meðhöndlar persónuupplýsingar umsækjenda við umsókn.

Uppruni persónugreinanlegu upplýsinganna þinna þegar þær eru ekki fengnar frá þér

Við kunnum að hafa móttekið persónugreinanlegu upplýsingarnar þínar frá öðrum einstaklingi ef sá einstaklingur hefur deilt efninu sínu með þér með notkun á vörum Apple, sent gjafabréf og vörur eða boðið þér þátttöku í þjónustu eða á umræðusvæðum Apple. Við kunnum einnig að staðfesta upplýsingarnar sem þú útvegaðir við stofnun á Apple ID-auðkenni við þriðja aðila af öryggisástæðum og til að koma í veg fyrir svik.

Ef þú kemur til greina fyrir starf hjá Apple kunnum við að hafa fengið persónuupplýsingar þínar frá þriðju aðilum á borð við ráðningaraðila eða ytri vefsvæði. Við munum nota persónuupplýsingarnar sem við fáum til að hafa samband við þig í tengslum við mögulegt starfstækifæri eða til að meta umsókn þína. Ef þú veittir okkur ekki persónuupplýsingar þínar beint upplýsum við þig um heimildaraðilann þegar við höfum fyrst samband við þig í tengslum við umsókn þína. Í rannsóknar- og þróunartilgangi kunnum við að nota gagnasöfn á borð við þau sem innihalda myndir, raddir eða önnur gögn sem hugsanlega er hægt að tengja við persónugreinanlegan einstakling. Þegar við komumst yfir slík gagnasöfn gerum við það í samræmi við gildandi lög í lögsagnarumdæminu þar sem gagnasafnið er hýst. Þegar við notum slík gagnasöfn í rannsóknar- og þróunarstarfsemi reynum við ekki að bera kennsl á einstaklinga sem kunna að leynast í þeim.

Söfnun og notkun ópersónugreinanlegra upplýsinga

Við söfnum einnig gögnum á sniði sem ekki er hægt að tengja beint við tiltekna einstaklinga. Við getum safnað, notað, flutt og birt ópersónugreinanlegar upplýsingar í hvaða tilgangi sem er. Hér eru nokkur dæmi um ópersónugreinanlegar upplýsingar sem við söfnum og hvernig við notum þær:

 • Við kunnum að safna upplýsingum á borð við starfssvið, tungumál, póstnúmer, svæðisnúmer, einkvæmt auðkenni tækis, tilvísunarvefslóð, staðsetningu og tímabelti þar sem Apple-vara er í notkun, í þeim tilgangi að skilja betur hegðun viðskiptavina og bæta vörur okkar, þjónustu og auglýsingar.
 • Við kunnum að safna upplýsingum um aðgerðir viðskiptavina á vefsvæði okkar, í iCloud-þjónustunni, iTunes Store, App Store, Mac App Store, App Store for Apple TV og iBooks Stores og frá öðrum vörum og þjónustu. Upplýsingunum er safnað saman og þær notaðar til að hjálpa okkur að veita viðskiptavinum gagnlegri upplýsingar og til að skilja hvaða hlutar vefsvæðisins, vara og þjónustu vekja mestan áhuga. Í þessari persónuverndarstefnu teljast samantekin gögn vera ópersónugreinanlegar upplýsingar.
 • Við kunnum að safna og vista upplýsingar um hvernig þú notar þjónustu okkar, þ.m.t. leitarfyrirspurnir þínar. Þessar upplýsingar kunna að verða notaðar til að skila betri leitarniðurstöðum í þjónustu okkar. Slíkar upplýsingar eru ekki tengdar við IP-töluna þína, að frátöldum takmörkuðum tilfellum þar sem markmiðið er að auka gæði þjónustu okkar á netinu.
 • Að fengnu skýru samþykki frá þér kunnum við að safna gögnum um notkun þína á tækinu þínu og forritum til þess að aðstoða þróunaraðila forrita við að bæta vörur sínar.
Ef við sameinum ópersónugreinanlegar upplýsingar persónugreinanlegum upplýsingum verður farið með sameinuðu upplýsingarnar sem persónugreinanlegar upplýsingar á meðan þær eru sameinaðar.

Kökur og önnur tækni

Vefsvæði Apple, netþjónusta, gagnvirk forrit, tölvupóstskeyti og auglýsingar kunna að nýta „kökur“ og aðra tækni á borð við pixlamerki og vefvita. Þessi tækni hjálpar okkur að skilja betur hegðun notenda, sjá hvaða hluta vefsvæða fólk hefur heimsótt og mæla árangur auglýsinga og vefleitar. Við förum með upplýsingar sem við söfnum með kökum og annarri tækni sem ópersónugreinanlegar upplýsingar. Að því marki sem IP-tölur eða svipuð auðkenni eru álitin persónuupplýsingar samkvæmt lögum á hverjum stað förum við hins vegar með þau auðkenni sem persónuupplýsingar. Að því marki sem ópersónugreinanlegar upplýsingar eru sameinaðar persónuupplýsingum verður á sama hátt farið með sameinuðu upplýsingarnar sem persónuupplýsingar samkvæmt þessari persónuverndarstefnu.

Auglýsingar sem birtast á vegum auglýsingavettvangs Apple kunna að birtast í Apple News og App Store. Ef þú vilt ekki fá sendar auglýsingar frá auglýsingavettvangi Apple sem byggðar eru á áhugasviði þínu getur þú kveikt á „Limit Ad Tracking“ sem hindrar að slíkar auglýsingar verði sendar á Apple ID-auðkennið þitt, óháð því hvaða tæki þú ert að nota. Ef þú kveikir á Limit Ad Tracking í fartækinu geta forrit þriðju aðila ekki notað Advertising Identifier, ópersónugreinanlegt auðkenni tækis, til að birta þér miðaðar auglýsingar. Þú munt hugsanlega áfram sjá auglýsingar í App Store eða News sem byggja á samhengi, t.d. leitarfyrirspurn frá þér eða rásinni sem þú ert að lesa. Í forritum þriðju aðila sérðu hugsanlega auglýsingar sem byggðar eru á öðrum upplýsingum.

Apple notar einnig kökur og aðra tækni til að muna persónuupplýsingar þegar þú notar vefsvæði okkar, netþjónustu og forrit. Markmið okkar í þessum tilvikum er að gera upplifun þína af Apple þægilegri og persónulegri. Með því að þekkja t.d. eiginnafn þitt getum við heilsað þér næst þegar þú heimsækir vefverslun Apple. Ef við þekkjum landið þitt og tungumál – og skólann þinn ef þú ert kennari – getum við boðið þér upp á sérsniðna og gagnlega verslunarupplifun. Ef við vitum að einhver notaði tölvuna þína eða tækið þitt til að kaupa ákveðna vöru eða nota tiltekna þjónustu hjálpar það okkur að laga auglýsingar okkar og tölvupóstsamskipti betur að áhugamálum þínum. Með því að hafa vitneskju um samskiptaupplýsingarnar þínar, auðkenni vélbúnaðar og upplýsingar um tölvuna þína eða tækið þitt er líka auðveldara fyrir okkur að sérsníða stýrikerfið þitt, setja upp iCloud-þjónustu fyrir þig og veita þér betri þjónustu.

Ef þú vilt gera kökur óvirkar og ert að nota Safari-vafrann skaltu fara í kjörstillingar Safari og opna persónuverndarsvæðið til að stjórna kjörstillingunum. Farðu í Stillingar í Apple-fartækinu og opnaðu Safari. Finndu hlutann Persónuvernd og öryggi og pikkaðu á „Útiloka kökur“ til að stjórna kjörstillingunum. Fyrir aðra vafra skaltu athuga hjá símafyrirtækinu hvernig kökur eru gerðar óvirkar. Athugaðu að tilteknir eiginleikar Apple-vefsvæðisins verða ekki í boði þegar kökur eru óvirkar.

Eins og gildir um flest internetþjónustufyrirtæki söfnum við ýmsum upplýsingum sjálfkrafa og vistum í annálaskrám. Meðal þessara upplýsinga eru IP-tölur, tegund og tungumál vafra, netþjónustuveita, tilvísunarvefsvæði/-forrit og lokavefsvæði/-forrit, stýrikerfi, dagsetningar-/tímastimpill og gögn um smelli. Við notum þessar upplýsingar til að skilja og greina leitni, til að hafa umsjón með vefsvæðinu, til að fræðast um hegðun notenda á vefsvæðinu, til að bæta vöru okkar og þjónustu og til að safna lýðfræðilegum upplýsingum um notendur okkar sem heild. Apple kann að nota þessar upplýsingar í markaðs- og auglýsingaþjónustu.

Í sumum tölvupóstskeytum okkar notum við veftengla sem smella má á og eru tengdir efni á vefsvæði Apple. Þegar viðskiptavinir smella á einn þessara tengla fara þeir í gegnum sérstakan vefþjón áður en þeir komast á áfangasíðu á vefsvæðinu okkar. Við skráum þessi smelligögn til að hjálpa okkur að ákvarða áhuga á tilteknu efni og mæla árangur samskipta okkar við viðskiptavini. Ef þú vilt ekki að fylgst sé með þér á þennan hátt skaltu ekki smella á texta- eða myndatengla í tölvupóstskeytum. Pixlamerki gera okkur kleift að senda tölvupóstskeyti á sniði sem viðskiptavinir geta lesið og þau segja okkur hvort skeyti hefur verið opnað. Við kunnum að nota þessar upplýsingar til að draga úr fjölda skeyta sem við sendum viðskiptavinum eða hætta sendingum.

Upplýsingar birtar þriðju aðilum

Apple kann að veita þriðju aðilum tilteknar persónuupplýsingar til að veita eða bæta vörur okkar og þjónustu, þ.m.t. til að veita þér vörur að þinni beiðni eða til að hjálpa Apple við markaðssetningu til neytenda. Þegar það er gert krefjumst við þess að þessir þriðju aðilar meðhöndli þær í samræmi við viðeigandi lög. Apple selur ekki persónuupplýsingar og persónuupplýsingum verður aldrei deilt með þriðju aðilum í markaðssetningarskyni. Þegar þú til að mynda kaupir og virkjar iPhone gefurðu Apple og símafyrirtækinu leyfi til að skiptast á þeim upplýsingum sem þú gefur upp við virkjunina til að hægt sé að veita þér þjónustu, þ.m.t. upplýsingar um tækið þitt. Ef þér er veitt þjónusta gilda persónuverndarstefnur Apple og símafyrirtækisins um reikninginn þinn.

Þjónustuveitur

Apple deilir persónugreinanlegum upplýsingum með fyrirtækjum sem veita þjónustu á borð við upplýsingavinnslu, lánaþjónustu, afgreiðslu pantana viðskiptavina, afhendingu vara, umsjón og endurbætur á gögnum viðskiptavina, þjónustu við viðskiptavini, mat á áhuga á vörum okkar og þjónustu og framkvæmd rannsókna eða kannana á ánægju meðal viðskiptavina. Þessum fyrirtækjum ber skylda til að vernda upplýsingar þínar og þau kunna að vera staðsett hvar sem Apple starfar.

Annað

Nauðsynlegt gæti verið – samkvæmt lögum, lagaferlum, málaferlum og/eða beiðni frá opinberum yfirvöldum í búsetulandi þínu eða öðrum löndum – að Apple gefi upp persónugreinanlegar upplýsingar þínar. Við kunnum einnig að gefa upp upplýsingar um þig ef við teljum það nauðsynlegt eða viðeigandi af orsökum sem varða þjóðaröryggi, löggæslu eða annan almannahag. Við kunnum einnig að gefa upp upplýsingar um þig, en aðeins ef lögmætur grundvöllur er fyrir því, ef við teljum það nauðsynlegt til að framfylgja skilmálum okkar eða vernda starfsemi okkar eða notendur.  Þetta gæti m.a. átt við um veitingu upplýsinga til opinberra yfirvalda. Aukinheldur, ef til endurskipulagningar, sameiningar eða sölu kemur, kunnum við að flytja allar persónugreinanlegar upplýsingar sem við höfum safnað til viðeigandi þriðja aðila.

Verndun persónugreinanlegra upplýsinga

Apple tekur öryggi persónugreinanlegra upplýsinga mjög alvarlega. Netþjónusta Apple á borð við vefverslun Apple og iTunes Store gætir persónuupplýsinga þinna við flutning þeirra með því að nota dulkóðun eins og TLS (Transport Layer Security). Þegar Apple geymir persónuupplýsingar frá þér notum við tölvukerfi með takmörkuðum aðgangi, hýst á stöðum sem varðir eru með efnislegum öryggisráðstöfunum. Að iCloud Mail undanskildu eru gögn í iCloud geymd á dulkóðuðu sniði, einnig þegar við notum vistun hjá þriðja aðila.

Þegar þú notar sumar vörur Apple, þjónustu eða forrit eða birtir færslu á Apple-umræðusvæði, -spjallrás eða -netsamfélagsþjónustu eru persónugreinanlegu upplýsingarnar og efnið sem þú deilir sýnilegt öðrum notendum og þeir geta lesið það, safnað því eða notað það. Þú berð ábyrgð á þeim persónuupplýsingum sem þú kýst að deila eða senda við þessar kringumstæður. Ef þú gefur t.d. upp nafn þitt og netfang í færslu á umræðusvæði eru þær upplýsingar opinberar. Sýndu aðgát þegar þú notar þessa eiginleika.

Ef þú eða einhver annar sem notar Family Sharing skráir sig inn í tæki sem er í eigu þriðja aðila er hægt að sækja allar upplýsingar sem samnýttar eru innan fjölskyldunnar – þ.m.t. dagbók, staðsetningu, myndir og kaup í iTunes – í viðkomandi tæki þriðja aðila og þar með gefa öðrum aðgang að þessum upplýsingum. Frekari upplýsingar má finna í Family Sharing.

Tilvist sjálfvirkrar ákvarðanatöku, þ. á m. gerð persónusniðs

Apple tekur engar ákvarðanir sem fela í sér notkun reiknirita eða persónusniðs sem hefur veruleg áhrif á þig.

Heilleiki og varðveisla persónugreinanlegra upplýsinga

Apple auðveldar þér að halda persónugreinanlegum upplýsingum þínum nákvæmum, tæmandi og uppfærðum. Við munum varðveita persónugreinanlegar upplýsingar þínar í þann tíma sem þarf í þeim tilgangi sem lýst er í þessari persónuverndarstefnu og persónuverndaryfirliti fyrir hverja þjónustu. Við mat á þessum tímabilum grandskoðum við þörf okkar á að safna persónugreinanlegum upplýsingum yfirleitt og ef við komumst að því að sú þörf sé til staðar varðveitum við gögnin í stysta mögulega tíma sem þarf í þeim tilgangi sem þeim er safnað nema lengri varðveislutíma sé krafist samkvæmt lögum.

Persónuverndarréttindi þín

Þú getur aðstoðað við að tryggja að samskiptaupplýsingar og kjörstillingar þínar séu nákvæmar, tæmandi og uppfærðar með því að skrá þig inn á Apple ID reikningssíðuna. Hvað varðar aðrar persónugreinanlegar upplýsingar sem við geymum veitum við þér aðgang (þar á meðal afrit) í hvaða tilgangi sem er, þ.m.t. til að biðja okkur um að leiðrétta gögnin ef þau eru ónákvæm eða eyða gögnunum ef Apple ber ekki skylda til að varðveita þau lögum samkvæmt eða í viðskiptalegum tilgangi.

Við gætum hafnað því að vinna úr beiðnum sem eru lítilvægar/tilefnislausar, stofna friðhelgi annarra í hættu, eru sérlega óhagkvæmar eða krefjast aðgangs sem að öðru leyti er ekki krafist samkvæmt lögum á hverjum stað. Við kunnum einnig að hafna beiðnum um eyðingu eða aðgang ef við teljum að það geti grafið undan lögmætri notkun okkar á gögnum í öryggisskyni og til að koma í veg fyrir svik, eins og var lýst hér á undan. Verkfæri á netinu fyrir beiðnir um aðgang, stöðvun/takmörkun, leiðréttingu eða eyðingu eru í boði á grundvelli hvers svæðis fyrir sig með því að skrá sig inn á privacy.apple.com. Notendur Shazam-reikninga skulu skrá sig inn á www.shazam.com/privacy. Þegar þú leggur fram beiðni með þessum verkfærum á netinu munum við staðfesta auðkenni þitt og lögmæti beiðninnar.

Kalifornía

Persónuvernd neytenda í Kaliforníu veitir neytendum í Kaliforníu rétt til þess að fá upplýsingar um persónuupplýsingar sem Apple safnar, notar og birtir um þá. Þú getur nýtt þér þinn rétt í gegnum viðurkenndan fulltrúa með því að gefa upp viðeigandi upplýsingar sem gera þér kleift að skrá þig inn á privacy.apple.com. Ef þú getur ekki fengið aðgang að verkfærum Apple á netinu getur þú eða fulltrúi þinn sent inn beiðni til apple.com/legal/privacy/contact eða með því að hringja í 1-800-275-2273.

Ef þú velur að nýta þér persónuverndarréttindi þín er það réttur þinn að fá ekki þjónustu frá Apple sem er óréttlát eða á einhvern hátt verri.

Nevada

Þú átt rétt á því að afþakka að persónuupplýsingar þínar verði seldar. Apple selur ekki persónuupplýsingar þínar.

Skoðaðu síðuna okkar um að skilja og stjórna persónuupplýsingum þínum til að fá frekari upplýsingar um það hvernig þú getur nýtt réttindi þín. Þar sem verkfærið á netinu er ekki í boði eins og er fyrir aðgangsbeiðnir á þínu svæði er hægt að senda beiðni beint á apple.com/legal/privacy/contact.

Börn og menntun

Okkur er ljóst mikilvægi þess að leggja sérstaka áherslu á að vernda einkalíf og öryggi barna sem nota vörur og þjónustu Apple. Börn undir 13 ára aldri, eða samsvarandi lágmarksaldri viðkomandi lögsagnarumdæmis, hafa ekki heimild til að stofna eigið Apple ID-auðkenni nema foreldri hafi veitt samþykki sem unnt er að staðfesta eða sem hluta af reikningsstofnunarferli barnsins í Family Sharing eða ef þau hafa fengið Apple ID-reikning í umsjón skólans síns (þar sem það er í boði). Foreldri verður til dæmis að fara yfir upplýsingar um Apple ID og Family Sharing og veita samþykki fyrir söfnun, notkun og upplýsingagjöf Apple á upplýsingum barnsins sem og samþykkja þjónustuskilmála iTunes Store áður en hægt er að hefja ferli við stofnun Apple ID-reiknings fyrir barnið. Auk þess geta skólar sem taka þátt í Apple School Manager og hafa farið yfir og samþykkt upplýsingarnar um Apple ID-auðkenni fyrir nemendur í umsjón skólans stofnað Apple ID-auðkenni í umsjón skólans fyrir nemendur. Upplýsingar um Apple ID-auðkenni fyrir nemendur í umsjón skóla lýsa því hvernig Apple fer með upplýsingar nemenda og er viðbót við persónuverndarstefnu Apple. Fáðu frekari upplýsingar um Family Sharing, Apple ID-auðkenni í umsjón skóla og takmarkanir fyrir reikninga barna. Ef við komumst að því að við höfum safnað persónugreinanlegum upplýsingum um barn undir 13 ára aldri, eða samsvarandi lágmarksaldri viðkomandi lögsagnarumdæmis, að fyrrnefndum kringumstæðum undanskildum, grípum við til aðgerða til að eyða þessum upplýsingum eins fljótt og auðið er. Ef þú sem foreldri þarft einhvern tímann að fá aðgang að, leiðrétta eða eyða gögnum sem tengjast Family Sharing-reikningi þínum eða Apple ID-auðkenni barnsins þíns geturðu haft samband við okkur í gegnum einn af valkostunum sem er boðið upp á neðst á síðunni.

Þjónusta sem byggist á staðsetningu

Til að veita þjónustu sem byggist á staðsetningu í vörum frá Apple kunna Apple og samstarfsaðilar okkar, svo sem kortagagnaveitur, að safna, nota og deila nákvæmum staðsetningargögnum, þ. á m. landfræðilegri rauntímastaðsetningu Apple-tölvunnar þinnar eða -tækisins. Þar sem það er í boði getur verið að þjónusta sem byggist á staðsetningu noti GPS, Bluetooth og IP-töluna þína, ásamt samansöfnuðum upplýsingum um staðsetningu heitra Wi-Fi reita og farsímamastra, auk annarrar tækni, til að ákvarða gróflega staðsetningu þína. Nema þú veitir samþykki þitt er þessum staðsetningargögnum safnað með nafnlausum hætti á sniði sem ekki er hægt að nota til að persónugreina þig og Apple, samstarfsaðilar okkar og leyfishafar nota þau til að útvega og bæta vörur og þjónustu sem byggjast á staðsetningu. Tækið þitt kann til dæmis að deila landfræðilegri staðsetningu sinni með forritaveitum þegar þú kýst að nýta þér staðsetningarþjónustu þeirra.

Sum þjónusta sem Apple býður upp á og byggist á staðsetningu, t.d. eiginleikinn „Find My “, krefst persónugreinanlegra upplýsinga frá þér til að virka.

Vefsvæði og þjónusta þriðju aðila

Vefsvæði, vörur, forrit og þjónusta Apple kunna að innihalda tengla á vefsvæði, vörur og þjónustu þriðju aðila. Vörur okkar og þjónusta kunna einnig að nota eða bjóða upp á vörur eða þjónustu frá þriðju aðilum – t.d. iPhone-forrit frá þriðja aðila.

Upplýsingar sem þriðji aðili safnar, og kunna að innihalda atriði á borð við staðsetningargögn eða samskiptaupplýsingar, lúta persónuverndarstefnu viðkomandi aðila. Við hvetjum þig til að kynna þér vinnubrögð þessara þriðju aðila þegar kemur að persónuvernd.

Ef þú kaupir áskrift í forriti þriðja aðila eða í News búum við til einkvæmt áskriftarkenni fyrir þig og þróunaraðilann eða útgefandann sem við notum til að senda skýrslur til þróunaraðilans eða útgefandans sem innihalda upplýsingar um áskriftina sem þú keyptir og búsetuland þitt. Ef þú segir upp öllum áskriftunum þínum hjá tilteknum þróunaraðila eða útgefanda verður áskriftarkennið endurstillt eftir 180 daga ef áskriftirnar eru ekki endurnýjaðar. Þessar upplýsingar eru sendar til þróunaraðila til að þeir geti gert sér grein fyrir frammistöðu áskriftanna.

Alþjóðlegur flutningur

Aðilar um allan heim kunna að flytja eða hafa aðgang að upplýsingum sem þú lætur af hendi eins og lýst er í þessari persónuverndarstefnu. Persónuupplýsingar, sem tengjast þjónustu Apple, varðandi einstaklinga sem eru búsettir í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, Bretlandi eða Sviss, eru undir stjórn Apple Distribution International Limited á Írlandi og Apple Inc. vinnur úr þeim fyrir hönd þess. Apple notar samþykkt samningsákvæði vegna flutnings á persónuupplýsingum á milli landa sem safnað er á Evrópska efnahagssvæðinu og í Sviss. Sem alþjóðlegt fyrirtæki er Apple með fjölda lögaðila í mismunandi lögsagnarumdæmum sem bera ábyrgð á þeim persónugreinanlegu upplýsingum sem þeir safna og unnið er úr fyrir þeirra hönd af Apple Inc. Til dæmis er upplýsingum frá sölustöðum smásöluaðila okkar utan Bandaríkjanna stjórnað af einstökum smásöluaðilum í hverju landi fyrir sig. Persónugreinanlegum upplýsingum hjá Apple, í vefversluninni og iTunes kann að vera stjórnað af lögaðilum utan Bandaríkjanna, eins og fram kemur í skilmálum hverrar þjónustu fyrir sig. Myndir og tengd gögn sem Apple safnar um allan heim til að bæta Apple Maps og styðja við eiginleikann Look Around eru flutt til Apple Inc í Kaliforníu.

Apple lýtur kerfi Efnahagssamstarfs Asíu- og Kyrrahafsríkjanna (APEC) um reglur varðandi persónuvernd í samskiptum yfir landamæri (CBPR). CBPR-kerfi APEC er rammi fyrir stofnanir og fyrirtæki til að tryggja vernd persónuupplýsinga sem fluttar eru milli þátttökuríkja APEC. Ef þú hefur einhverjar áhyggjur varðandi persónuvernd eða gagnanotkun og APEC CBPR- og/eða PRP-vottanir okkar sem ekki hefur verið leyst úr skaltu leita til þriðja aðila sem sinnir úrlausn ágreiningsmála fyrir okkur.

Áhersla fyrirtækisins á persónuvernd þína

Til að tryggja öryggi persónugreinanlegu upplýsinganna þinna upplýsum við starfsfólk Apple um reglur okkar varðandi persónuvernd og öryggi og framfylgjum með ströngum hætti öryggisráðstöfunum innan fyrirtækisins.

Spurningar um persónuvernd

Ef spurningar eða athugunarefni koma upp varðandi persónuverndarstefnu eða gagnavinnslu Apple, þú vilt hafa samband við gagnaverndarfulltrúa okkar eða ef þú vilt kvarta yfir hugsanlegu broti á staðbundnum persónuverndarlögum skaltu hafa samband. Þú getur hringt í okkur hvenær sem er í viðeigandi símanúmer fyrir aðstoð og þjónustu Apple í þínu landi eða svæði.

Þegar okkur berst spurning um persónuvernd eða móttöku á persónuupplýsingum út af beiðni um aðgang/niðurhal höfum við á að skipa sérstöku starfsfólki sem fer yfir samskiptin og leitast við að taka á vandamálinu. Ef málið er umfangsmeira í eðli sínu gætum við óskað frekari upplýsinga frá þér. Öllum slíkum umfangsmeiri samskiptum er svarað innan sjö (7) daga þar sem því verður við komið. Þar verður vandamálinu svarað, þú beðin(n) um viðbótarupplýsingar ef nauðsyn krefur eða þér sagt að það taki lengri tíma að fá svar við vandanum. Ef þú sættir þig ekki við svar okkar geturðu beint kvörtun þinni til viðeigandi eftirlitsaðila í þínu lögsagnarumdæmi hvenær sem er. Ef þú spyrð okkur munum við leitast við að veita þér upplýsingar um leiðir til að leggja fram kvartanir sem eiga við þínar kringumstæður.

Þar sem kvörtun þín bendir til þess að bæta þurfi meðhöndlun okkar á persónuverndarmálum munum við leitast við að gera slíka uppfærslu við fyrsta tækifæri. Ef persónuverndarmál hefur haft neikvæð áhrif á þig eða annan einstakling munum við leitast við að ræða það við þig eða viðkomandi einstakling.

Apple kann að uppfæra persónuverndarstefnuna annað veifið. Þegar við gerum efnislegar breytingar á stefnunni birtum við tilkynningu á vefsvæði okkar ásamt uppfærðu persónuverndarstefnunni. Við munum einnig hafa samband við þig í gegnum samskiptaupplýsingarnar þínar sem við höfum á skrá, t.d. í tölvupósti, tilkynningu eða með álíkum hætti. 

Apple Inc. One Apple Park Way, Cupertino, Kalifornía, Bandaríkin, 95014

TRUSTe